Episodes
Saturday May 08, 2021
Saturday May 08, 2021
„Ég fékk ekki spjall eða fræðslu um hvað væri markalaust og hvað ekki. Það var bara bros before hoes, high five á kviðmága og hversu mörg gígabæt af klámi voru á flakkaranum.” segir Einar Ómarsson í spjalli með Sólborgu Guðbrandsdóttir stofnanda Instagramsíðunnar Fávitar.
Önnur bylgja metoo virðist hafin í kjölfar „slúðursagna” um ofbeldisbrot þjóðþekkts manns, sem Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður taldi eiga við um sig og sór af sér ásakanirnar í viðtali við sjálfan sig. Stuttu síðar tilkynnti lögfræðingur að hún hefði lagt fram kæru gegn Sölva, fyrir hönd tveggja kvenna.
Einar og Sólborg reyndu að greina hvað er að gerast í samfélaginu, ræddu karlakúltúr, strákamenningu, skrímslavæðingu, gerendameðvirkni, klám, forréttindafirringu karla og sekt þeirra sem kunni að skýra ótta þeirra við að taka afstöðu með þolendum.
Credit:
Intro&outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
Tekið upp í Stúdíó Macland
Friday Apr 30, 2021
Friday Apr 30, 2021
„Það er ekki eins samþykkt að strákar séu að segja frá átröskun eða segja frá því að þeim líki ekki vel við sig“ segja Elva Björk og Erna Kristín sem hafa lengi barist gegn fitufordómum og fyrir líkamsvirðingu. Í ljósi þess að fáir ef nokkur karlmaður er áberandi í umræðu um líkamsvirðingu drengja og karla, bað ég Elvu og Ernu um að svara því hverjar áskoranir drengja og karla eru og hvernig við, drengir og karlar, þurfum og getum tekið umræðu um líkamsvirðingu. Löngum hefur verið ljóst að margir drengir og karlar glíma við neikvæða líkamsímynd enda eru fyrirmyndir þeirra oft á tíðum að miðla óraunhæfum viðmiðum um útlit. Líkamsvirðing drengja og karla er viðfangsefni 29. þáttar í hlaðvarpinu Karlmennskan. Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli. Tekið upp í Stúdíó Macland.
Friday Apr 23, 2021
Friday Apr 23, 2021
„Þetta mun ekki breytast af sjálfu sér“, segir Ása Steinarsdóttir sem er komin með nóg af kynjamisrétti og úreltum birtingamyndum kvenna í auglýsingaefni. Hún hefur ákveðið að taka slaginn enda með 700 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlum og skapað sér nafn innan ævintýra- og ljósmyndageirans. Ása er ein sú stærsta af örfáum konum í Evrópu sem starfa við efnissköpun á samfélagsmiðlum og hraðast vaxandi kvenkyns ljósmyndarinn. Stofnaði Ása fyrirtækið Bell Collective, sem er samfélag fyrir kvenkyns ljósmyndara og efnisskapara en með því vill Ása brjóta upp staðalmyndina um að konur þurfi að ná árangri út á útlitið. Í 28. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar gefur Ása Steinarsdóttir innsýn í karllægni auglýsingabransans, hvað þurfi að breytast og hvernig hún vill vera fyrirmynd fyrir konur sem hafa áhuga á ljósmyndun.
Friday Apr 16, 2021
Friday Apr 16, 2021
„Ónýtasta ráðið þarna út er „ekki fara ósátt að sofa“,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, sem hefur starfað lengi með verðandi og nýbökuðum feðrum. Ólafur Grétar starfar einnig á geðsviði Landspítalans. Hann brennur fyrir því að „þegar karlar eru að verða pabbar í fyrsta sinn að þeir fái að njóta þess eins mikið og lífið bíður upp á“. Hann segir að það hafi aldrei verið eins góð tækifæri til þess og á þeim tímum sem við lifum í dag.
Friday Apr 09, 2021
Friday Apr 09, 2021
„Það er ekkert svo langt síðan að við hættum að vera á yfirborðinu og fórum að tala um hvernig við erum í alvörunni“ er nokkuð lýsandi fyrir innihald samtals okkar fjögurra vina sem höfum verið að glíma við sjálfa okkur, sambönd og karlmennsku. Ég bauð nokkrum af mínum nánunustu vinum í spjall um það hvernig þeir eru að glíma við þá staðreynd að vera (hálf)miðaldra hvítir gagnkynhneigðir sís karlmenn. Persónulegt og oft á tíðum berskjaldað samtal sem snertir á upplifun af jafnréttisbaráttunni, karlmennsku, sjálfsvinnu, vináttu, ofbeldi og mental loadi. Geta miðaldra karlar verið nánir vinir án þess að næra misrétti, karlasamstöðuna og feðraveldið?
Friday Apr 02, 2021
Friday Apr 02, 2021
„Ég á mér fortíð sem gagnkynhneigður maður, var í hjónabandi með konu og ól upp dóttur en það sem ég þráði alltaf innst inni voru karlmenn,“ segir Þorvaldur Kristinsson rithöfundur sem kominn er á áttræðisaldur og hefur staðið framarlega í réttindabaráttu samkynhneigðra í nokkra áratugi. Þorvaldur fékk yfir sig skítkast úti á götu, átti erfitt á íbúðamarkaði og upplifði á eigin skinni andúð og fordóma fyrir kynhneigð sína. Mikil framför hefur átt sér stað í réttindabaráttu samkynhneigðra undanfarin 30 ár sem Þorvaldur skýrir með tilkomu frjálsrar fjölmiðlunar, íslenskra fjölskyldubanda, stuðnings háskólasamfélagsins, ferðalögum Íslendinga erlendis og tilkomu netmiðla. Þorsteinn ræðir við Þorvald Kristinsson í 25. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar um tilvistarbaráttu homma, áskoranir okkar samtíma í réttindabaráttu hinsegin fólks og hvernig synd, glæpur og sjúkdómur tengist orðræðu um samkynhneigð.
Friday Mar 26, 2021
Friday Mar 26, 2021
Samfélagsmiðlinn Karlmennskan hefur staðið fyrir átaksverkefninu jákvæð karlmennska undanfarnar tvær vikur í samstarfi við Píeta samtökin, Stígamót, UN Women á Íslandi og námsbraut í kynjafræði í Háskóla Íslands. Í þessum þætti er hugtakið jákvæð karlmennska útskýrt nánar ásamt því sem fulltrúar samstarfsaðilanna gera grein fyrir snertirfleti þeirra starfsemi við karlmennsku og ástæður þess að þau ákváðu að taka undir átakið jákvæð karlmennska. Um er að ræða endurbirtar hljóðklippur úr viðtalsþættinum Karlmennskan á Hringbraut frá 15. mars þar sem Þorsteinn ræðir við Þorgerði Einarsdóttur prófessor í kynjafræði, Hjálmar Sigmarsson ráðgjafa hjá Stígamótum, Kristínu Ólafsdóttur framkvæmdastjóra Píeta samtakanna og Mörtu Goðadóttur kynningarstýru UN Women á Íslandi. Þorsteinn fer að lokum sjálfur ítarlega yfir innihald, uppbyggingu og hugmyndafræðina að baki jákvæðrar karlmennsku. Jákvæð karlmennska er þema 24. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar.
Friday Mar 19, 2021
Friday Mar 19, 2021
„Öll þekking og færni þarnfast þjálfunar og reynslu til að verða góð,“ segir Hermundur Sigmundsson prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við Háskólann í Reykjavík og Háskólann í Þrándheimi. Nokkuð hefur verið talað um drengi í skólakerfinu og hefur Hermundur talað um að það ríki þöggun um málefni þeirra. Hann telur að börn byrji of snemma í skóla og skólakerfið taki ekki nægjanlegt tillit til þarfa barna. Hermundur segir að öll börn þurfi að vinna með réttar áskoranir og aðalmálið sé að við náum að skapa umhverfi sem sé gott og mæti þörfum þeirra.
Þorsteinn ræðir við Hermund í 23. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar, fær skýringar á því í hverju hann telur að þöggunin felist, hvað þurfi að laga í skólakerfinu að hans mati og af hverju. Þetta er samtal um skólastarf, drengi og stúlkur, testósterón, karlmennskuhugmyndir, erfðir og umhverfi. Getur lífeðlisfræðin skýrt mun í námsárangri drengja og stúlkna eða spilar umhverfið, eins og karlmennskuhugmyndir, rullu í því samhengi?
Friday Mar 12, 2021
Friday Mar 12, 2021
„Pabbar þurfa að stíga upp og taka ábyrgð“ segir Andrea Eyland sem hefur tileinkað tíma sínum og starfskröftum í umfjöllun um barneignir og foreldra. Andrea gaf út bókina Kviknar, sjónvarpsseríurnar Líf kviknar og Líf dafnar auk þess að sjá um hlaðvarpið Kviknar og samnefnt Instagram sem er með tæplega 11 þúsund fylgjendur en aðeins 2% af þeim eru karlar. Þorsteinn spjallar við Andreu Eyland í 22. þætti hlaðvarpsins Karlmennskan um aðdragandann að því að Andrea fór á fullt með Kviknar, brennandi hugsjón hennar fyrir bættum aðbúnaði fyrir foreldra, virknina í Kviknar samfélaginu á Instagram, ódugnaði velviljaðra karla við heimilis- og fjölskylduhald og fjarveru feðra frá umræðum um barneignir.
Friday Mar 05, 2021
Friday Mar 05, 2021
„Fitufordómarnir, mismununin, skömmin og smánunin sem feitt fólk þarf að þola [...] er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir öllum kvillum sem við tengjum venjulega við fituvefinn,“ segir Tara Margrét Vilhjálmsdóttir formaður Samtaka um líkamsvirðingu. Vilja samtökin sjá skaðminni nálgun í heilbrigðisþjónustu því stríð við offitu endar alltaf á að vera stríð við feitt fólk. Tara Margrét útskýrir í hverju líkamsvirðing felst og hvernig hún felist ekki eingöngu í líkamlegu útliti. Miklir, meðvitaðir og ómeðvitaðir fordómar ríkja um holdafar fólks, jafnvel um granna líkama karla. Lýsir Tara því hvernig fjölmiðlar afmennska feitt fólk, afbaka málstað fólks sem berst fyrir bættri lýðheilsu út frá líkamsvirðingu og hvernig fordómar sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu virka sem andspyrna við bætta lýðheilsu fólks. Tara Margrét er viðmælandi Þorsteins í 21. þætti hlaðvarpsins Karlmennskan.
Friday Feb 26, 2021
Friday Feb 26, 2021
„Þótt við gefum okkur út fyrir að vera framsækin þá erum við fáránlega föst í hugmyndum um kynhlutverkin, sérstaklega þegar kemur að körlum.“ segir Þórður Kristinsson kennslukarl, doktorsnemi og femínisti. Í 20. þætti í hlaðvarpinu Karlmennskan ræðir Þorsteinn við Þórð um hlutverk karla innan femínisma, hver munurinn á pro-femínista og femínista er, hvernig karlar eigi til að gusslast áfram og stela athygli frá konum. Þeir ræða doktorsverkefni Þórðar um samfélagsmiðlanotkun unglinga sem er ólík milli drengja og stúlkna og auk þess fer Þórður lauslega yfir efnistökin í fyrsta sérhannaða námsefninu í kynjafræði fyrir framhaldsskólanema, sem hann útbjó með Björk Þorgeirsdóttur. Umræðan leiðist líka inn á karlrembu drengja, stöðu þeirra í skólakerfinu og aðkallandi áskoranir er snýr að drengjum, körlum og jafnrétti.
Friday Feb 19, 2021
Friday Feb 19, 2021
„Það er engin spurning hverjir fá peningana“ segir Finnborg Salome Steinþórsdóttir doktor í kynjafræði en doktorsrannsókn hennar fjallaði um kynjuð fjármál gegn kynjaslagsíðu háskóla í kjölfar markaðsvæðingar. Finnborg kynjagreindi efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID með félaginu Femínísk fjármál og hefja þær vitundavakningu í næstu viku. Finnborg hefur ansi breiðan bakgrunn í rannsóknum og hefur að auki við doktorsrannsókn á stýringu fjármagns, rannsakað vinnumenningu innan lögreglunnar, nauðgunarmenningu í íslensku samfélagi og nýlega skilaði hún skýrslu til heilbrigðisráðherra út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Þemað í 19. podcastþætti Karlmennskunnar eru valdatengsl og kynjað sjónarhorn á ýmsar stoðir í íslensku samfélagi.
Friday Feb 12, 2021
Friday Feb 12, 2021
„Munur á launum karla og kvenna á Íslandi er 14% í dag og það er út af því að karlar hafa meiri ábyrgð og eru í störfum sem við metum verðmætari en störf kvenna.“ segir Víðir Ragnarsson verkefnastjóri í jafnréttis- og mannauðsmálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Árangur Orkuveitunnar í jafnréttismálum hefur vakið athygli, þá einkum erlendis en þó líka hérlendis. Leiðréttur launamunur milli karla og kvenna hjá Orkuveitunni fór úr 8% í 0% á nokkrum árum og hefur haldist þannig frá árinu 2017 vegna markvissra aðgerða sem hafa grundvallast á kyngreindum gögnum. Þá hefur starfsánægja og árangur fyrirtækisins aukist samhliða. Víðir útskýrir kynbundinn launamun, leiðréttan kynbundinn launamun, gildismat starfa, kynskiptan vinnumarkað og hve mikilvægt er að stjórnendur hafi skýran vilja til aðgerða í jafnréttismálum með áherslu á fólk í 18. podcast-þætti Karlmennskunnar sem er í umsjón Þorsteins V. Einarssonar.
Friday Feb 05, 2021
Friday Feb 05, 2021
„Við erum alltaf að endurskapa þessar hugmyndir [um karlmennsku og kvenleika] [...] það eru valdatengsl í þessum samskiptum og við erum alltaf að endurskapa kynin og valdatengslin í nýjum búningum. Við sjáum eina hindrun, ryðjum henni úr vegi en þá spretta upp aðrar hindranir.“ segir Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands í samtali við Þorstein V. EInarsson í 17. podcastþætti Karlmennskunnar. Þorgerður hefur starfað í 20 ár við kynjafræðirannsóknir og segist verða þreytt og vonlaus á „þreyttum málflutningi“ t.d. um drengi í skólakerfinu sem hún segir að sé oft byggður á holum grunni. Farið er yfir hina svokölluðu drengjaorðræðu, hvað gerir kynjafræði að fræðigrein, algengar mýtur og gagnrýni á kynjafræðileg sjónarhorn í rannsóknum, femínisma og mismunandi aðferðir til að vinna að jafnrétti.
Friday Jan 29, 2021
Friday Jan 29, 2021
Hjónin Þorsteinn og Hulda ræða við parameðferðar sálfræðinginn sinn, Hrefnu Hrund Pétursdóttur, um parasambönd, samskipti og algeng vandamál í nánum samböndum í 16. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar.
Friday Jan 22, 2021
Friday Jan 22, 2021
„Ég held að rót allra vandamála sé skortur á gagnrýnni hugsun. Að geta litið í eigin barm og séð samfélagið og ósýnilegar hindranir sem liggja ekki í augum uppi. Það er ekkert nema gagnrýnin hugsun.“ segir Sara Mansour laganemi og aktívisti fyrir mannréttindum og aukinni lýðræðisvitund. Sara hefur talað fyrir mannréttindum, málefnum flóttafólks og femínisma frá 13 ára aldri. Í þessum 15. podcast þætti Karlmennskunnar ræðum við um hvít forréttindi, rasisma, valdatengsl og fordóma sem sannarlega fyrirfinnast á Íslandi eins og víða.
Friday Jan 15, 2021
Friday Jan 15, 2021
„Tölvuleikjaheimurinn er eins og sjúklega ýkt týpa af feðraveldinu.“ segir Dagný Halla Ágústdóttir læknanemi, tölvuleikjaspilari og TikTok-femínisti. Dagný hefur upplifað mikla fordóma sem „gamer“ fyrir það eitt að vera kvenkyns spilari og segir menninguna í tölvuleikjaheiminum vera litaða kvenfyrirlitningu, rasisma og ableisma. Unnið sé markvisst gegn stelpum, þær áreittar, krafðar um að vera léttklæddar og segir Dagný best að eiga samskipti skriflega, svo hún komi ekki upp um kyn sitt. Tengir hún þessa menningu við alt right pipe line, algorithma samfélagsmiðlanna og hvíta hryðjuverkamenn sem réðust inn í þinghús Bandaríkjanna. Dagný veitir sláandi en áhugaverða innsýn í menningu sem er líklega hulin flestum sem ekki spila tölvuleiki eða eru virk á TikTok.
Friday Jan 08, 2021
Friday Jan 08, 2021
„Aktívismi er ekki að spyrja hvernig líður þér núna. Þú þarft bara að fara af stað. Let´s fokking go! [...] Ég held að þetta hafi bara allt farið eins og það átti að fara,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir laganemi, formaður starfshóps menntamálaráðherra um endurskoðun á kynfræðslu og fyrrverandi umsjónarkona Fávitar á Instagram sem er enn með rúmlega 32 þúsund fylgjendur. Í þættinum ræðum við ferðalagið sem Fávitar hefur verið sl. 4-5 ár, samleið Karlmennskunnar og Fávita, andspyrnu karla, kennara og foreldra, starfshóp menntamálaráðherra og næstu verkefni Sólborgar.
Friday Dec 18, 2020
Friday Dec 18, 2020
„Þú gast bara lifað þínu lífi áfram á meðan ég var bara ein heima með barnið og kalt kaffi“. Hjónin Hulda Jónsdóttir Tölgyes og Þorsteinn V. Einarsson ræða saman í þessum þætti um reynslu þeirra og upplifun af meðgöngu og fæðingarorlofi. Hvað þau hefðu viljað vita fyrirfram, hverju þau hefðu viljað breyta og það sem heppnaðist ágætlega.
Friday Dec 11, 2020
Friday Dec 11, 2020
„Nei, börn eru ekki vernduð fyrir ofbeldi á Íslandi,“ segir Sigrún Sif Jóelsdóttir talskona Lífs án ofbeldis. Umgengnis- og forsjármál eru oft lituð andstæðum sjónarmiðum í opinberri umræðu þar sem feður og mæður virðast takast á og við, dómstóll götunnar, erum krafin um afstöðu. Sigrún Sif vill aðgreina mál þar sem um ofbeldi er að ræða frá öðrum umgengnis- og forsjármálum og segir að feður þurfi að berjast fyrir breytingum á kerfinu. Hver er að gæta hagsmuna barna og hvernig vinnum við saman að bættari ramma í kringum þessi viðkvæmu mál, sem umgengnis- og forsjármálin eru? Það skal tekið fram að Félag um foreldrajafnrétti, áður Félag ábyrgra feðra, var boðið að taka þátt í þessum þætti en stjórn félagsins hafnaði því og vildi ekki eiga samtal um umgengnis- og forsjármál á þessum vettvangi.